Um rannsóknina

Hér má finna ýmsar upplýsingar um rannsóknina, viðtöl við okkur, greinar sem birtar hafa verið, veggspjöld, fyrirlestrar og fleira. Fleira á eftir að týnast inn hér eftir því sem tímanum líður og við söfnum meiri gögnum. 
 

Ný og vaxandi fræði

Matvendni hjá börnum, sérstaklega þeim sem glíma við taugaþroskaraskanir á borð við ADHD og raskanir á einhverfurófi, er nýtt og vaxandi rannsóknarefni sem krefst þverfaglegrar nálgunar. Bragðlaukaþjálfun er unnin upp úr hugðarefni Önnu Sigríðar Ólafsdóttur prófessors í næringarfræði og teymis hennar. Aðaláhersla okkar í þessu verkefni er á fæðuval, matvendni og líðan, bæði hjá börnum og foreldrum. Meginþungi rannsóknarinnar liggur í fjölbreytileika í fæðuvali, og þá sér í lagi að auka neyslu ávaxta- og grænmetis sem eru þær fæðutegundir sem helst skortir í mataræði barna almennt. Bragðlaukaþjálfun í þeirri mynd sem við fáumst við hana er nýjung á Íslandi. 
 
Rannsóknir okkar benda til þess að draga megi úr matvendni með bragðlaukaþjálfun. Þjálfunin felur í sér endurtekna kynningu á matvælum á tiltölulega skömmum tíma en mesta ákorunin er oft að fá börn til að smakka bragðmiklar fæðutegundir. Við höfum leikinn og gleðina að leiðarljósi og samvinnu barna og foreldra. Matvendni getur falið í sér að barn velur umfram annað mat sem er bragðdaufur eða sætur, en litur, áferð og annað skynáreiti getur líka ýtt undir einhæft fæðuval. Það krefst þolinmæði að venja börn á nýjar fæðutegundir og mikilvægt er að virkja fjölskylduna og nærumhverfið til að draga úr matvendni og stuðla að heilsusamlegu fæðuvali.

 

Matvendni og taugaþroskaraskanir

Börn með taugaþroskaraskanir á borð við ADHD og raskanir á einhverfurófi eru gjarnan matvandari en önnur börn og geta átt erfitt með að borða fjölbreyttan mat. Það gerir það að verkum að matartíminn getur valdið kvíða og gert samskipti fjölskyldumeðlima erfiðari í kringum máltíðir. Það er því sérstaklega mikilvægt að styðja við fæðuval hjá þessum börnum og stuðla þannig að góðu næringarástandi þeirra. Það eru fá úrræði í boði fyrir börn með matvendni og taugaþroskaraskanir og oftar en ekki eru þau útilokuð frá rannsóknum á matvendni.
 
Rannsóknir okkar hafa skapað nýja þekkingu og úrræðið getur gagnast breiðum hópi í samfélaginu. Bragðlaukaþjálfunin sem hefur verið að nýtast börnum með sérþarfir og foreldrum þeirra gagnast nefnilega öllum. Við stefnum að því að útbúa fræðsluefni fyrir bæði fjölskyldur og skóla en einnig eru fleiri rannsóknir í bígerð m.a. á börnum á leikskólaaldri. Þannig getum við stutt við það heilsueflandi matarumhverfi sem börnin upplifa á hverjum degi, hvort sem er í leikskólanum, skólamötuneytinu eða heima hjá sér. Verkefnið hefur því víða skírskotun í heilsu og velferð sem er ein af grunnstoðum aðalnámskrár á öllum skólastigum. Verkefninu er ætlað að hlúa í senn að líkamlegri, andlegri og félagslegri vellíðan.