Sapere

Upphaf bragðlaukaþjálfunar má rekja til Frakklands en þar í landi var innleidd stefna um heilsuuppeldi í skólum landsins. Efnafræðingurinn Jacques Puisais var fenginn til að hanna kerfi sem geti þjálfað börn í að smakka framandi brögð og nýjan mat. Puisais hafði sérstakan áhuga á því að vinna gegn einsleitni bragðs.

Honum fannst frönsk börn smám saman eiga erfiðara með að samþykkja beisk og súr matvæli. Hann komst að því að skynjun fólks verður fátækari með einsleitu bragði matvæla sem aftur getur haft áhrif á val þess á matvælum.

Puisais vildi að fólk notaði öll skilningarvitin til að skynja og upplifa mat og bragðtegundir og úr varð Sapere-þjálfunin. Sapere gengur einnig út á að þjálfa börn í að upplifa ný brögð og njóta þeirra. Þannig læra menn smátt og smátt að njóta hverrar máltíðar.

Til liðsinnis við sig, svo að verkefnið fengi á sig heilsteypta mynd, fékk Puisais konu að nafni Dominique Montoux sem hafði í 20 ár unnið að verklegum bragðæfingum fyrir börn.

Puisais vann að hugmyndafræðinni á bak við verkefnið og úr varð þjálfun í bragðsmökkun sem á frönsku kallaðist „Classes du Goût“. Síðar fékk þjálfunin nafnið Sapere sem kemur úr latínu og þýðir „að þora“ eða „að prófa“.

Aðferðir Sapere berast víðar

Aðferð Sapere barst til Svíþjóðar um miðjan 10. áratuginn þegar samtök matvælarannsakenda höfðu samband við Puisais. Eftir nokkurra ára samstarf kennara, ráðamanna hjá matvælastofnun í Svíþjóð og samtökum í matvælarannsóknum var fyrsta handbókin gefin út þar í landi.

Rannsakendur hjá veitinga- og hótelskóla þar í landi gerðu fyrstu úttektina á fyrstu árgöngum nemenda sem tóku þátt í að læra samkvæmt aðferðum Sapere. Rannsóknin gaf jákvæðar vísbendingar um að bragðlaukaþjálfun hjálpaði börnum að kynnast nýjum matvælum.

Við upphaf 21. aldar urðu Finnar einnig áhugasamir um Sapere eftir að hafa kynnt sér sænsku handbókina. Síðan þá hefur aðferðin þróast og verið mikið notuð í skólum, frístundaklúbbum og félagsmiðstöðvum í þessum löndum. Félag heimilisfræðikennara í Finnlandi hefur haldið utan um þjálfun kennara og gefið út efni því tengdu.

Þjálfuninni er skipt upp í nokkrar kennsluæfingar þar sem bragðskyn er örvað sérstaklega ásamt hinum skynfærunum. Það getur verið tiltölulega auðvelt að setja sig inn í aðstæður og ímynda sér tilfinninguna að borða eitthvað sem við þekkjum. En það getur verið erfitt, einkum fyrir börn, að finna réttu orðin til að útskýra hvernig eitthvað bragðast.

Kjarni Sapere-aðferðarinnar er þessi: „Án orða er erfitt að útskýra bragðupplifun og án bragðupplifunar er erfitt að finna réttu orðin.“ Menn verða sem sagt að smakka til að geta útskýrt hvernig þeim finnst eitthvað bragðast. 

Helstu markmið Sapere þjálfunarinnar

  • Að læra að þekkja skilningarvit sín og smekk
  • Að þjálfast í að koma skoðunum sínum á framfæri, bæði munnlega og skriflega
  • Að þora að prófa ný hráefni
  • Að auka við fjölbreytni í mataræðinu
  • Að upplifa mat og máltíðir sem eitthvað spennandi og skemmtilegt
  • Að tengja tilgang máltíðar við menningu, umhverfi, náttúru og heilsu
  • Að þróast sem meðvitaður neytandi 

Samantektin hér að ofan er byggð á meistararitgerð Ólafar Sæmundsdóttur (2018), Bragðlaukaþjálfun: Þróun og prófun námsefnis.