Matvendni

Matarvenjur fólks eru margbreytilegar eftir heimsálfum, menningu og siðum í landi hverju. Mismunandi er hvaða matarkröfur eru gerðar til barna eftir því hvar þau búa í heiminum og hvað foreldrar ætlast til að þau borði. Margir uppalendur hafa áhyggjur af matarvenjum barna sinna, hvort einhverjar fæðutegundir skorti í mataræðið eða ef börnin eiga erfitt með að samþykkja nýjar fæðutegundir. Matvendni er það stundum kallað þegar einstaklingur neitar fæðu eða fæðuflokki sem talin eru nauðsynleg fyrir vöxt og þroska hans. Oftar en ekki eru þetta fæðutegundir sem flokkast undir hollustu, þá sérstaklega bragðmikið grænmeti og grófmeti.

Hálf-borðað epli

Nýfælni og fæðusérviska

Matvendni skiptist gjarnan í tvo flokka, annars vegar nýfælni (e. neophobia) og hins vegar fæðusérvisku (e. fussy eating). Nýfælni er þegar einstaklingur er hræddur við að bragða á nýjum fæðutegundum eða forðast þær alveg. Fæðusérviska er þegar einstaklingur hafnar ákveðinni fæðu eða fæðuflokkum hvort sem hann þekkir matinn eða ekki. Fæðuval getur því orðið einhæft. Matvendni þarf að vera nokkuð svæsin og farin að há fólki til að teljast alvarleg, en það er t.d. ekki matvendni í sjálfu sér að plokka sveppi úr lasagna, eða nýrnabaunum úr pottrétti, svo lengi sem mataræðið er almennt nokkuð fjölbreytt. Ef aftur á móti börn eða fullorðnir neiti mörgum fæðuflokkum alfarið, er kannski tími til kominn að skoða hvað veldur.

 

Fjórar meginástæður fyrir höfnun fæðutegunda

Almennt séð er matvendnin yfirleitt í hámarki á aldrinum tveggja til sex ára en smátt og smátt dregur úr nýfælni er líður á unglingsár og er hún minnst á fullorðinsaldri. Í sumum tilfellum eykst nýfælnin aftur þegar fólk kemst á efri ár. Oft eru tilgreindar fjórar meginástæður fyrir höfnun fæðutegunda hjá fólki. Þær eru:

  1. ógleði af bragði, lykt eða áferð, 
  2. hætta á vanlíðan við inntöku, 
  3. óaðlaðandi uppruni matarins út frá menningu eða 
  4. óviðeigandi matur sem ekki er æskilegur

Óljóst er hvort matvendni er orsök eða afleiðing af slæmri matarhegðun en matvendni er oft könnuð með spurningalistum sem fullorðnir svara eða foreldrar svara fyrir börn sín.

Rannsóknir sýna að börn með matvendni borða oft og tíðum minna af heilsusamlegu fæði, þá sérstaklega grænmeti enda oft beiskt bragð af því. Þar sem mikið er af trefjum, vítamínum og steinefnum í grænmeti og ávöxtum er hætta á vannæringu ef þeirra er aldrei neytt. Rannsóknir sýna að lélegar fæðuvenjur barna geta gefið vísbendingar um að offita geti þróast sem getur haft marga heilsutengda áhættuþætti í för með sér síðar á lífsleiðinni. 

 

White food syndrome

Venjur barna með annars vegar ADHD og raskanir á einhverfurófi eru nokkru ólíkar þörfum barna sem ekki hafa taugaþroskaraskanir, ekki síst með tilliti til mataræðis. Þar má nefna að börn með ADHD geta verið hvatvís og hömlulaus þegar kemur að mat og sækja frekar í sætt en börn án ADHD. Börn með einhverfu geta aftur á móti verið afar viðkvæm fyrir bragði, áferð og lykt af mat. Nokkuð agengt er að börn með einhverfu séu einnig með ADHD og því hætta á að fæðið verði einhæft hjá þeim börnum. Sameiginlegt hjá þessum börnum er að sækja frekar í einföld kolvetni og sér í lagi litlausan mat (e. white food syndrome) eins og hvítt pasta, kex, hvít grón, hvítt brauð.