Skynjun

Image
Barn með spergilskálsbita og gullrótarbita

Öll erum við ólík og skynjum matinn á mismunandi hátt, þannig getur skynjunin haft mismunandi áhrif á hvort einstaklingar hafni eða samþykki nýjan mat. Fræðimenn hafa komist að því að áferð matar frekar en litur, útlit og bragð getur haft mikið að segja til um hvort börn á aldrinum tveggja til þriggja ára samþykki matinn eða hafni honum. Skynjun einstaklinga, hvað varðar mat og sem ræður því hvort þeir hafna honum eða samþykkja hann, á ekki einungis við um börn heldur líka um matvanda fullorðna. Fullorðið matvant fólk hafnar t.d. frekar súrri og beiskri fæðu en saltri eða sætri. Það er líka algengt að fullorðnir hafni fæðu vegna slepjulegrar áferðar (t.d. steiktir sveppir, laukur, eggaldin, kúrbítur) eða litar. 

Nýr matur paraður við kunnuglegan mat

Þegar kynna á nýjan mat fyrir börnum er oft áhrifaríkt að kynna gott bragð, sem börn þekkja áður, með nýjum mat. Þetta er hægt að gera með því að bæta nýja matnum saman við mat eða bragð sem er þegar kunnugt einstaklingnum. Í danskri rannsókn var hvítkál t.d. kynnt með sítrónu, olíu og vanillusykri. Börnunum þótti kálið afar spennandi og minnti þau sum á vanilluís. Með því að skapa jákvætt viðhorf til framandi bragða eða áferða eru meiri líkur á að viðkomandi vilji smakka aðrar framandi fæðutegundir.